Innlent

Segir framlag háskólans duga til að steypa upp húsið

Stígur Helgason skrifar
Svona á húsið að líta út tilbúið.
Svona á húsið að líta út tilbúið.
Hægt væri að steypa upp Hús íslenskra fræða við Suðurgötu og ganga frá umhverfi þess fyrir eftirstöðvarnar af beinu framlagi Háskóla Íslands til verkefnisins, að sögn forstöðumanns Árnastofnunar.

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra sagði í samtali við RÚV fyrir viku að til greina kæmi að hætta alveg við byggingu hússins í sparnaðarskyni, þótt hann væri ekki hlynntur þeirri leið, og alltént þyrfti að skoða það að gera breytingar á verkhraðanum.

Guðrún Nordal
„Það er mjög eðlilegt, og í raun æskilegt, að ný stjórnvöld fari vel yfir allar opinberar framkvæmdaáætlanir,“ segir Guðrún Nordal, forstöðumaður Árnastofnunar. „Undirbúningur við byggingu Húss íslenskra fræða hefur staðið í fimm ár. Hönnun er að fullu lokið og framkvæmdir þegar hafnar. En það er vitaskuld spurning um verkhraðann,“ segir hún.

„Það gleymist hins vegar stundum í umræðunni um Hús íslenskra fræða að byggingin er sameiginlegt verkefni ríkisins og Háskóla Íslands. Nú þegar hafa þessir aðilar varið um sex hundruð milljónum króna til verksins, og hægt væri að steypa húsið upp og ganga frá umhverfi þess með eftirstöðvum af framlagi Háskóla Íslands eingöngu. Ég er því vongóð að byggingarframkvæmdir við þetta mikilvæga hús komist á góðan skrið á þessu 350. afmælisári Árna Magnússonar,“ segir Guðrún Nordal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×