Innlent

Lögmaðurinn ekki ákærður

Stígur Helgason skrifar
Þjóðverjarnir tveir voru handteknir í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í byrjun mars.
Þjóðverjarnir tveir voru handteknir í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í byrjun mars.
Íslenskur héraðsdómslögmaður, sem sætti fyrr á árinu gæsluvarðhaldi vegna gruns um að hann tengdist innflutningi á tæpum 300 grömmum af kókaíni til landsins, var ekki ákærður í málinu. Í dómi yfir einum smyglaranna segir að margt styðji þann framburð lögmannsins að hann hafi aldrei hitt smyglarann.

Dómurinn yfir manninum, hinum þýska Andreas Michael Leyendecker, var kveðinn upp í gær, degi eftir 53 ára afmælisdag hans. Hann hlaut sextán mánaða fangelsisdóm fyrir að standa að innflutningi á kókaíninu, alls 283 grömmum. Annar Þjóðverji, sem flutti efnin til landsins innvortis, hafði áður játað sök og verið dæmdur í tíu mánaða fangelsi.

Við komuna til landsins í byrjun mars sagðist Leyendecker ætla að færa fíkniefnin íslenskum lögmanni, Snorra Sturlusyni, sem var í kjölfarið handtekinn og úrskurðaður í gæsluvarðhald.

Snorri neitaði hins vegar sök frá upphafi, sagði þann þýska hafa komist í samband við hann í gegnum skjólstæðing hans sem nú byggi í Suður-Ameríku, og að hann hafi talið að Leyendecker vildi koma hingað til lands til að eiga viðskipti með ávaxtakaffi.

Í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjaness segir að framburður Leyendeckers hafi „í öllum atriðum verið með ólíkindum, reikull og misvísandi þannig að erfitt er að henda reiður á hann“ og í ósamræmi við framburð allra annarra.

Þá hafi lýsing hans á útliti Snorra verið „í algjörri andstöðu við raunveruleikann“, sem styðji þann framburð Snorra að þeir hafi aldrei hist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×