Lífið

Plötuð í eigin gæsaveislu

Hanna Ólafsdóttir skrifar
Björt Ólafsdóttir gengur í það heilaga síðar í sumar og var af því tilefni gæsuð af vinkonum sínum síðastliðna helgi. fréttablaðið/Pjetur.
Björt Ólafsdóttir gengur í það heilaga síðar í sumar og var af því tilefni gæsuð af vinkonum sínum síðastliðna helgi. fréttablaðið/Pjetur. Pjetur
„Þetta byrjaði þannig að ég fékk símtal frá Helga Seljan eitt kvöldið þegar ég var á þinginu þar sem hann bað mig um að koma í Vikulokin. Eftir á að hyggja sé ég alveg skítaglottið á honum í anda,“ segir þingkona Bjartrar framtíðar, Björt Ólafsdóttir, sem var gæsuð af vinkonum sínum um síðustu helgi.

Björt mun ganga að eiga unnusta sinn Birgi Viðarson síðar í sumar en þau hafa verið par í tíu ár og eiga saman einn son.



Björt segir að vegna anna á þinginu hafi hún ekki haft ráðrúm til að gruna einhvern um græsku vegna komandi brúðkaups og því gleypt við bláköldum lygum Helga Seljan sem hafði verið fenginn til að hringja í Björt og ginna hana upp í Útvarpshús þar sem vinkonur hennar ætluðu að koma henni á óvart.

„Ég reyndar spurði hann hvort hann væri byrjaður að sjá um Vikulokin og hvort þau væru vanalega tekin upp á laugardagsmorgnum. Hann sagðist vera í afleysingum og að það væri búið að breyta upptökutímanum á þættinum. Þannig að ég bara samþykkti að mæta.“



Björt segist hafa verið frekar þreytt og illa fyrirkölluð morguninn sem útvarpsviðtalið átti að eiga sér stað og aldrei þessu vant mætt of seint. „Það var búið að vera brjálað að gera á þinginu fram á nótt og ég var ekkert að nenna að setja mig í þennan pólitíkusa-gír. En ég komst ekki lengra en í anddyrið þar sem vinkonur mínar tóku á móti mér, bíðandi með kampavín.“



Björt varð að eigin sögn mjög hissa yfir móttökunum. „Þetta kom algjörlega á óvart og var mjög skemmtilegt. Við byrjuðum á að drekka kampavín uppi á RÚV og spjalla og hlæja. Síðan tók eiginlega við eitt dekrið á eftir öðru ásamt öðrum skemmtilegum uppákomum. Vinkonur mínar sögðu mér að vinnuheitið á gæsaplaninu hafi verið „drepum hana með dekri“, og það stóð fyllilega undir nafni,“ segir Björt hlæjandi.



Dagskráin endaði síðan í matarboði heima hjá einni vinkonu Bjartar þar sem Heiðar snyrtir kom og lagði þeim lífreglurnar í hinum ýmsu málum.

„Það var mikið hlegið, faðmast og kysst. Það var svo dýrmætt að eiga þennan dag saman og það hefði ekki þurft að hafa neina sérstaka dagskrá. Bara að fá að eyða deginum með mínum yndislegu vinkonum er nóg fyrir mig.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.