Íslenski boltinn

Betri reynsla á Íslandi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
James Hurst var frábær með ÍBV árið 2010 og er óðum að finna fyrra form með Valsmönnum.
James Hurst var frábær með ÍBV árið 2010 og er óðum að finna fyrra form með Valsmönnum. fréttablaðið/anton
Íslenskir knattspyrnuáhugamenn fögnuðu sjálfsagt þegar Valsmenn kræktu í varnarmanninn James Hurst skömmu fyrir tímabilið í Pepsi-deild karla. Hann átti frábært sumar þegar hann spilaði sem lánsmaður hjá ÍBV fyrir þremur árum.

Hurst átti frábæran leik og skoraði eitt mark þegar Valur vann 5-3 sigur á Þór í síðustu umferð Pepsi-deildar karla. Hann er því leikmaður 6. umferðarinnar að mati Fréttablaðsins.

Hann segist kominn aftur til Íslands til að koma ferli sínum aftur í gang eftir erfið meiðsli.

Lá á spítala í mánuð

„Ég meiddist í nára og fór í aðgerð. Hún gekk ekki nógu vel og ég þurfti að vera á sjúkrahúsi í einn mánuð. Læknarnir áttu erfitt með að útskýra hvað væri að en ég jafnaði mig á endanum og líður vel í dag. En þetta þýddi að ég hafði misst af stórum hluta tímabilsins úti. Því taldi ég það árangursríkustu leiðina til að koma mér aftur í gott form að koma aftur til Íslands,“ sagði Hurst en hann er samningsbundinn Val til loka tímabilsins. Hann staðfestir þó að hann hafi rætt við Eyjamenn um að koma aftur til ÍBV en ákvað á endanum að ganga til liðs við Val.

Hurst í baráttu við Simon Davies hjá Fulham í janúar árið 2011.Nordic Photos / Getty Images
Hurst er aðeins 21 árs gamall og skrifaði undir sinn fyrsta atvinnumannasamning fyrir fimm árum. Þá hafði hann spilað með unglingaliðum West Brom og hafði verið orðaður við stórlið á borð við Arsenal og Manchester United. En hann valdi að semja við Portsmouth, þar sem hann var í tvö ár. Eftir dvölina hjá ÍBV samdi hann við West Brom á ný.

Nýtti sénsinn vel

„Það var mjög erfitt að komast í aðalliðið þar,“ sagði hann en West Brom hafnaði í áttunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar þetta tímabilið. Hurst spilaði þrjá leiki tímabilið 2010-2011, þar af einn deildarleik í byrjunarliði, og þótti standa sig vel.

„Mér fannst ég nýta mín tækifæri mjög vel. En það var greinilega ekki nóg og tókst mér ekki að komast í aðalliðið, hverju sem það var að kenna. Ég sé þó ekki eftir neinu enda lagði ég mig allan fram,“ sagði Hurst.

Hann segir markmiðið hjá sér að komast aftur í ensku úrvalsdeildina og lítur á dvöl sína hér sem lykilþátt í því.

Ísland góður stökkpallur

„Það reyndist svo góður stökkpallur fyrir mig að koma til Íslands síðast þegar ég var hérna. Annars hefði ég aldrei fengið tækifæri til að spila með þeim bestu. Þegar ég kom aftur til Englands í lok ágúst 2010 var ég í betra formi en aðrir leikmenn. Það kom sér vel og ég fékk tækifærið í desember,“ segir Hurst.

Síðastliðin tvö ár hefur hann verið í láni hjá alls fjórum liðum í neðri deildum enska boltans og hann segir það mun betri reynslu en að spila með varaliði úrvalsdeildarfélags.

Í leik með West Brom á undirbúningstímabilinu í fyrra.Nordic Photos / Getty Images
„Þessi umræða kemur reglulega upp í Englandi en frá því að ég var sextán ára gamall hef ég lagt áherslu á að spila með eldri leikmönnum í alvöru liðum. Ég myndi mæla með því við sextán ára leikmenn að spila frekar í neðri deildunum, jafnvel utandeildinni, heldur en að berjast um athygli í varaliði hjá stóru félagi,“ segir Hurst.

Fáið reynsluna frekar heima


Spurður segist hann hiklaust mæla með því að ungir og efnilegir íslenskir leikmenn dvelji lengur hér á landi fremur en að spila með unglinga- og varaliðum sterkra evrópskra félaga. „Ég mæli frekar með því að spila með karlmönnum á Íslandi en í varaliði úti. Það er betri reynsla.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×