Fótbolti

Aron byrjar á bekknum í Bosníu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Jóhannsson í leik með AZ Alkmaar.
Aron Jóhannsson í leik með AZ Alkmaar. Mynd/NordicPhotos/Getty
Aron Jóhannsson er á varamannabekknum hjá bandaríska landsliðinu í kvöld en liðið mætir þá Bosníu í vináttulandsleik í Sarajevo. Þetta er í fyrsta sinn sem Aron er með bandaríska landsliðinu eftir að hann tók ákvörðun sína að gefa ekki kost á sér í íslenska landsliðið og spila þess í stað fyrir Bandaríkin.

Aron er að kynnast leikmönnum bandaríska liðsins í fyrsta sinn í þessari ferð. Jurgen Klinsmann, þjálfari bandaríska landsliðsins, hefur talað vel um hann í aðdraganda leiksins og lagði mikla áherslu á að Aron gæfi kost á sér í bandaríska landsliðið frekar en það íslenska.

Klinsmann mun því örugglega leyfa Aroni að fá einhverjar mínútur á Asim Ferhatovic Hase leikvanginum á eftir. Leikurinn hefst klukkan 18.30 að íslenskum tíma.

Jozy Altidore, fyrrum liðsfélagi Arons hjá AZ Alkmaar og nú leikmaður enska liðsins Sunderland, byrjar einn í framlínunni á móti Bosníumönnum en fyrir aftan hann eru þeir Alejandro Bedoya (Nantes, Frakklandi), Mikkel Diskerud (Rosenborg, Noregi) og Eddie Johnson (Seattle Sounders, Bandaríkin).

Michael Bradley (Roma) og Jermaine Jones (Schalke 04) byrja síðan sem varnartengiliðir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×