Enski boltinn

Sár og móðgaður út í félagið sitt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Peter Odemwingie.
Peter Odemwingie. Mynd/Nordic Photos/Getty
Peter Odemwingie, framherji West Bromwich Albion, kvartar undan félaginu sínu í yfirlýsingu sem hann sendi enskum fjölmiðlum og birt var á Sky Sports í dag. Forráðamenn West Brom höfnuðu beiðni Odemwingie um að setja hann á sölulista.

"Ég er mjög sár og um leið móðgaður yfir skorti á almennri virðingu frá stjórnarmönnum í West Bromwich Albion," segir í yfirlýsingu frá Peter Odemwingie.

Odemwingie er 31 árs gamall Nígeríumaður sem er fæddur í Rússlandi. Hann hefur spilað með West Bromwich Albion frá 2010 eða síðan að enska félagið keypti hann frá rússneska félaginu Lokomotiv Moskvu. Odemwingie hefur skorað 30 mörk í 80 leikjum í ensku úrvalsdeildinni með WBA.

"Allan minn tíma hjá félaginu þá hef ég skilað því sem til mín var ætlast í formi marka og því að leggja mig fram. Ég hef aldrei kvartað þegar ég frétti af því að félagið hafi ekki sagt mér frá spennandi fyrirspurnum sem hefðu verið áhugaverð fyrir mig og mína fjölskyldu," segir ennfremur í yfirlýsingunni.

Peter Odemwingie hefur skorað 5 mörk og gefið 3 stoðsendingar í 18 leikjum með West Bromwich Albion í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili en hann hefur hinsvegar aðeins komið að einu marki frá og með 28. nóvember og það kom í síðasta leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×