Enski boltinn

Zabaleta tryggði Manchester City sigur á Stoke

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pablo Zabaleta.
Pablo Zabaleta. Mynd/Nordic Photos/Getty
Manchester City fagnaði sínum fyrsta útisigri á Stoke City síðan 1999 þegar ensku meistaraernir fóru í burtu með 1-0 sigur í leik liðanna í 4. umferð ensku bikarkeppninnar í dag.

Pablo Zabaleta tók við fyrirliðabandinu af Vincent Kompany þegar hann meiddist í fyrri hálfleik og skoraði síðan sigurmark Manchester City fimm mínútum fyrir leikslok.

Ryan Shawcross skoraði mark fyrir Stoke í fyrri hálfleiknum en markið var réttilega dæmt af vegna rangstöðu. David Silva komst nálægt því að skora fyrir City í hálfleiknum þegar hann átti skot í slá.

Vincent Kompany, fyrirliði Manchester City, meiddist á ökkla og varð að fara af velli í fyrri hálfleiknum.

Manchester City var miklu betra liðið í seinni hálfleik og í raun aðeins spurning um hvort Stoke-liðið héldi út. Svo fór nú ekki.

Roberto Mancini, stjóri Manchester City, bætti við mönnum í sóknina og sigurmarkið kom síðan á 85. mínútu eftir laglega sókn. David Silva kom boltanum á varamanninn Sergio Aguero og sending hans fór af Edin Dzeko og til Pablo Zabaleta. Pablo Zabaleta hafði byrjað sóknina og hann var fljótur að átta sig og skoraði með hnitmiðuðu skoti úr teignum.

Stoke City varð að sætta sig við sjaldgæft tap á heimavelli í enska bikarnum en það hafði ekki gerst í síðustu níu leikjum á Britannia.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×