Enski boltinn

Chelsea bauð í Butland

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Chelsea hefur gert tilboð í markvörðinn Jack Butland hjá Birmingham og hefur leikmaðurinn fengið leyfi til að ræða við Evrópumeistarana.

Umboðsmaður Butland segir að tilboðið sé um 3,5 milljónir punda en þrátt fyrir allt er talið ólíklegt að Butland muni fara á því verði.

Forráðamenn Birmingham vilja fá meira fyrir Butland og höfnuðu sex milljóna punda tilboði frá Southampton í sumar. En félagið á í miklum fjárhagserfiðleikum og eru í raun allir leikmenn þess nú til sölu.

Samkvæmt enskum fjölmiðlum vonast Birmingham til að áhugi Chelsea dugi til að keyra upp verðið á Butland áður en lokað verður fyrir félagaskipti annað kvöld.

Butland er nítján ára gamall og þykir mikið efni. Hann var aðalmarkvörður breska liðsins á Ólympíuleikunum í sumar og varð yngsti markvörður enska landsliðsins frá upphafi er hann spilaði gegn Ítalíu í ágúst síðastliðnum.

Butland hefur einnig verið orðaður við Everton, Fulham og Liverpool.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×