Zvonimir Boban var farsæll leikmaður AC Milan í áratug og vann meðal annars fjóra meistaratitla með liðinu á árunum 1993 til 1999. Boban er orðinn þreyttur á agaleysi hins 23 ára Mario Balotelli.
„Balotelli hefði borið töskurnar fyrir Marco van Basten, George Weah og Andriy Shevchenko í mínu AC Milan," sagði Zvonimir Boban við Football - Italia.
Boban er ekki sáttur við stjörnustæla stráksins. „Hann skilur ekki hvað það þýðir að klæðast AC Milan treyjunni. Við ættum að hætta að tala um Balotelli. Hann hefur gert lítið annað en að sitja á varamannabekknum. Balottelli verður alltaf minni en AC Milan og AC Milan verður alltaf stærri en hann," sagði Boban.
„Leikmenn eins og Paolo Maldini, Marcel Desailly, Sebastiano Rossi, Alessandro Costacurta og Franco Baresi hefðu haldið honum á mottunni á mínum tíma. Hans slæma hugarfar pirrar mig sem og það að hann þekkir ekki þýðingu þess að klæðast Milan-búningnum," sagði Boban sem lék sjálfur 250 leiki fyrir AC Milan.

