Enski boltinn

Beckham æfir með Arsenal

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
David Beckham mun í dag hefja æfingar með Arsenal. Hann hefur þó ekki í hyggju að semja við félagið.

Beckham er 37 ára gamall og án félags þessa stundina. Hann bað um að fá að æfa með Arsenal til að halda sér í formi, þar til að hann ákveður framtíð sína.

Hann æfði með Arsenal árið 2008 og svo með Tottenham fyrir tveimur árum síðan, þegar hlé var gert á bandrísku MLS-deildinni.

„Hann hefur ekki gert neitt í langan tíma og er að reyna að komast aftur í form. Hann hringdi í mig en þetta snýst eingöngu um að hann fái að æfa með okkur," sagði Arsene Wenger, stjóri Arsenal.

Beckham hefur verið orðaður við bæði QPR og West Ham, sem og PSG í Frakklandi. Þá eru félög í Miðausturlöndum sögð áhugasöm um kappann og Sven-Göran Eriksson, sem réði sig nýverið til Al Nasr í Dúbæ, sagði að hann myndi taka Beckham opnum örmum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×