Fótbolti

Þetta eru bestu úrslitin í kvöld fyrir íslensku stelpurnar

Óskar Ófeigur Jónsson í Vaxjö skrifar
Mynd/ÓskarÓ
Keppni í A-riðli Evrópumeistaramóts kvenna í fótbolta í Svíþjóð lýkur með þriðju umferð riðilsins í kvöld en úrslitin í leikjunum í A-riðli geta haft áhrif á möguleika íslenska liðsins á morgun. Málið snýst nefnilega um að aðeins tvö af þremur liðum sem enda í þriðja sæti síns riðils komast áfram í átta liða úrslitin.

Bestu úrslitin fyrir íslenska liðið í kvöld er að Danmörk og Finnland geri jafntefli í sínum leik. Bæði liðin væru þá með tvö stig og íslenska liðið myndi þá alltaf vera í hópi tveggja bestu liðanna í þriðja sæti svo framarlega sem stelpunum okkar takist að vinna Holland á morgun.

Finnarnir létu Svíana hinsvegar rúlla yfir sig í síðasta leik (0-5) og því eru kannski ekki miklar líkur á því að finnska liðinu geti staðið í því danska í Gautaborg í kvöld.

Svíar og Ítalir spila á sama tíma og komast bæði áfram með jafntefli. Þau eru þegar komin með fjögur stig eftir tvo fyrstu leikina.

Leikir dagsins í A-riðlinum hefjast báðir klukkan 18.30 á íslenskum tíma en þeir fara fram í Halmstad (Svíþjóð-Ítalía) og Gautaborg (Danmörk-Finnland).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×