Fótbolti

Pólverjar hittast í Varsjá og styðja Ísland

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
„Á meðal okkar eru miklir stuðningsmenn sem hafa fylgst með íslenskum fótbolta í mörg ár,“ segir Pólverjinn Piotr Giedyk.

Giedyk ætlar að hitta landa sína á öldurhúsi í Varsjá í kvöld og fylgjast með viðureign íslenska karlalandsliðsins gegn Kýpur í undankeppni HM 2014. Giedyk er einn stofnenda stuðningsmannaklúbbs íslenskskrar knattspyrnu í Póllandi.

„Klúbburinn var stofnaður fyrr á árinu í Varsjá. Núna er 21 stuðningsmaður í hópnum og við höfum bæði áhuga á íslensku deildinni og landsliðinu,“ segir Giedyk. Þeir hittast reglulega í Varsjá og fylgjast með fótbolta frá Íslandi.

Pólverjar sækja Úkraínu heim í undankeppninni í kvöld klukkan 18. Leikurinn skarast því við viðureignina á Laugardalsvelli sem hefst 18.45. Giedyk segist munu horfa á leikinn hjá Íslandi og veit af Pólverjum hér á landi sem kjósa það líka.

Til umræðu hefur verið að Pólverjar vilji fá Lars Lagerbäck, þjálfara íslenska landsliðsins, til að taka við þjálfun karlalandsliðs Pólverja. Giedyk er ekki sammála.

„Hann á að vera áfram með íslenska liðið. Við þurfum innlendan þjálfara til að bæta gengi liðsins.“

Leikur Íslands og Kýpur hefst á Laugardalsvelli í kvöld klukkan 18.45. Hann verður í beinni textalýsingu hér á Vísi auk þess sem Guðmundur Benediktsson lýsir honum á Bylgjunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×