Lífið

Siggi Hlö á leiðinni í sjónvarpið

Siggi Hlö verður í miklu stuði og rifjar upp árin 1975-1990 á Stöð 2 í sumarlok þegar skemmti- og spurningaþátturinn Veistu hver ég var? verður sýndur.
Siggi Hlö verður í miklu stuði og rifjar upp árin 1975-1990 á Stöð 2 í sumarlok þegar skemmti- og spurningaþátturinn Veistu hver ég var? verður sýndur. mynd/pjetur
Aðdáendur útvarpsþáttarins Veistu hver ég var? með Sigga Hlö geta látið sig hlakka til sumarloka því þá fer í loftið á Stöð 2 samnefndur sjónvarpsþáttur. Þættir með sögum frá diskóárunum og Hallærisplaninu.

„Já, nú er komið að því að þátturinn fari á skjáinn,“ segir Siggi, sem er þessa í sólinni á Spáni. Hann er ekki alveg óvanur því að vera í sjónvarpi. Siggi sá um þáttinn Popp og kók árið 1989 til 1991 og Með haustverk um helgar árin 1999-2001.

„Þessi nýi þáttur verður byggður á sömu hugmynd og útvarpsþátturinn Veistu hver ég var?. Þetta verður skemmtiþáttur með spurningaívafi. Það verða tvö lið sem keppa en spurningar tengjast árunum 1975-1990. Spurt verður meðal annars um tónlist, tíðaranda, kvikmyndir, fréttir og myndbönd. Við munum skemmta okkur og hlæja að fortíðinni,“ segir Siggi.

„Keppendur verða ekki eingöngu þekktir einstaklingar, eins og oft er í slíkum þáttum, heldur verður einn þekktur sem tekur með sér tvo vini sína. Ég stefni á að fá fólk sem var ungt að skemmta sér á þeim tíma sem fjallað verður um. Það er fólk 40 ára og eldri,“ segir Siggi en þátturinn verður á laugardagskvöldum.

„Það verða margar skemmtilegar minningar rifjaðar upp í þáttunum en þær geta síðan orðið kveikjan að slíkum sögum heima hjá áhorfendum. Þetta eru sögur sem ungt fólk í dag hefur aldrei heyrt um en þeir eldri eiga eftir að brosa út í annað.“

Plötusnúðurinn DJ Fox verður í diskóbúri í salnum og leikur viðeigandi tónlist. „Hann verður skellihlæjandi á kantinum og á eftir að slá í gegn. Við sem stöndum að undirbúningi þáttarins höfum skemmt okkur konunglega og ég veit að það á eftir að skila sér til áhorfenda. Leikmyndin verður líka rosalega flott.“

Þótt Siggi Hlö verði með nýjan þátt á Stöð 2 halda útvarpsþættirnir áfram á laugardögum, enda þeir allra vinsælustu. Siggi Hlö verður því tvöfaldur á laugardögum en það er heldur ekki hægt að fá nóg af honum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.