Innlent

Fornminjar komu í ljós eftir að kirkjan brann

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
mynd/365
„Þetta leit ekki út fyrir að vera neitt flókið þegar við hófum hreinsunarstarfið, svo kom þetta hellugólf í ljós, sem við vissum ekkert af“ segir Katrín Gunnarsdóttir fornleifafræðingur á Byggðasafni Hafnarfjarðar um fornminjar sem fundust við hreinsunarstarf af grunni gömlu kirkjunnar í Krýsuvík.

Kirkjan brann árið 2010 og hreinsunarstarf hófst síðastliðið haust. „Svo komu einnig hleðslur í ljós fyrir utan grunninn sem við vissum ekkert um heldur."

Byggðasafn Hafnarfjarðar fékk 400 þúsund krónur úr Fornminjasjóði til áframhaldandi vinnu við uppgröft á grunnfleti Krýsuvíkurkirkju. „Nú er meiningin að hreinsa og fá hellugólfið alveg fram og þessar hleðslur sem eru þarna fyrir utan. Svo verður væntanlega hlaðið upp undir kirkjuna sem á að koma þarna ofan á og verið er að smíða í Iðnskólanum í Hafnarfirði.“

Gamla kirkjan var byggð árið 1857. „Þetta hefði ekki komið í ljós ef ekki hefði verið fyrir brunann sem er nokkuð sérstakt. Það er auðvitað mjög leiðinlegt að gamla kirkjan brann en það má segja að þetta sé þó jákvæður punktur við þetta, en það vissi enginn af þessum minjum.“  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×