Fótbolti

Messi sló ótrúlegt met þegar Barca gerði jafntefli við Celta Vigo

Stefán Árni Pálsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Barcelona gerði jafntefli, 2-2, gegn Celta Vigo í spænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Fyrsta mark leiksins skoraði Nacho Insa, leikmaður Celta Vigo, sjö mínútum fyrir lok fyrri hálfleiks.

Það tók gestina aðeins fimm mínútur að jafna metin en þá skoraði Cristian Tello fínt mark fyrir Barca. Staðan var því 1-1 í hálfleik.

Barcelona réðu lögum og lofum í síðari hálfleiknum og bara tímaspursmál hvenær annað mark liðsins liti dagsins ljós. Það kom engum á óvart að það var Lionel Messi sem skoraði á 73. mínútu leiksins en með markinu skoraði leikmaðurinn í sínum 19. deildarleik í röð.

Enn eitt metið sem Messi slær en hann hefur núna skorað gegn öllum liðum í spænsku deildinni á tímabilinu og er það algjört einsdæmi. Ótrúlegt met hjá mögnuðum leikmanni.

Það leit allt út fyrir að Barcelona myndi vinna enn einn sigurinn en tveimur mínútum fyrir leikslok náði Borja Oubiña að jafna metin fyrir heimamenn og allt varð vitlaust á vellinum.

Leiknum lauk því með 2-2 jafntefli liðanna en Barca sem fyrr í efsta sæti deildarinnar með 77 stig. Celta er í 18. sæti með 24 stig og berjast fyrir sæti sínu í deildinni. Frábært stig fyrir heimamenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×