Enski boltinn

Tvö rauð í tæpum sigri Arsenal

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sidwell tæklar Arteta og sér rautt.
Sidwell tæklar Arteta og sér rautt. Nordicphotos/Getty
Arsenal vann nauman 1-0 sigur á Fulham í Lundúnarslag í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Tvö rauð spjöld fóru á loft í leiknum.

Arsenal fékk óskabyrjun strax á tólftu mínútu leiksins. Þá gerði Steve Sidwell sig sekan um glórulausa tæklingu á Mikel Arteta og sá rautt.

Ellefu leikmenn Arsenal áttu þó í mestu vandræðum með granna sína frá London. Á markamínútunni tókst þó Þjóðverjanum Per Mertesacker að brjóta ísinn með skalla af stuttu færi.

Oliver Giroud átti skot í stöngina í fyrri hálfleik sem var ekki sá skemmtilegasti í úrvalsdeildinni á þessari leiktíð.

Frakkinn sá svo sjálfur rautt á lokamínútu leiksins  fyrir klaufalega tæklingu. Fulham tókst þó ekki að jafna metin og Arsenal fagnaði stigunum þremur.

Skytturnar sitja eftir sigurinn í 3. sæti deildarinnar með tveggja stiga forskot á Chelsea sem á tvo leiki til góða. Chelsea mætir Liverpool á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×