Enski boltinn

Buðum mikla peninga í Gylfa

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Brian McDermott
Brian McDermott Nordicphotos/Getty
Brian McDermott, fyrrverandi þjálfari enska úrvalsdeildarliðsins Reading, er í ítarlegu viðtali við Dailymail um helgina.

McDermott var látinn taka pokann sinn á dögunum. Hann var valinn knattspyrnustjóri janúarmánaðar og útlitið var nokkuð gott hjá nýliðunum. Eftir fjóra tapleiki í röð var þolinmæði rússneska eigandans, Anton Zingareich, öll.

„Þegar ég hitti Anton í Mílanó í janúar 2011 sagði hann mér að það væri engin pressa á mér að fara upp með liðið. En ég sagði honum að ég væri orðinn fimmtugur og vildi drífa í þessu," segir McDermott.

Hann segir Reading hafa komist í úrvalsdeildina ári á undan áætlun.

„Ég vann 18 klukkustunda vinnudaga hjá Reading frá því ég var yfirnjósnari félagsins undir stjórn Alan Pardew fyrir átján árum og til dagsins sem ég var rekinn," segir McDermott.

„Ég skil ekki fólk sem segist ekki vilja vinna. Ég naut hverrar mínútu."

McDermott segist hafa fengið 400 sms skilaboð fyrstu dagana eftir brottreksturinn. Hann segist aldrei hafa reiknað með því að vera rekinn. Hefði hann varið 30 milljónum punda eigendanna hefði það kannski verið réttlætanlegt en svo fór ekki.

„Ég veit að eigandinn segir að ég hafi ekki keypt neina leikmenn í janúar. En við komumst ekki að samkomulagi um kaupverðið á Thomas Ince hjá Blackpool og Gylfa Sigurðssyni hjá Spurs. Við buðum mikla peninga í leikmennina."

Viðtalið í heild sinni má sjá hér. Hér fyrir neðan má svo sjá McDermott taka slagarann „Knocking on Heavens Door" á öldurhúsi á dögunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×