Enski boltinn

Man. Utd. kláraði Stoke | Forskotið aftur 15 stig

Stefán Árni Pálsson skrifar
Manchester United vann fínan sigur á Stoke, 2-0, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag en leikurinn fór fram á Britannia-leikvanginum í Stoke.

Fyrsta mark leiksins gerði Michael Carrick eftir aðeins fjögra mínútna leik þegar hann fékk boltann inn í vítateig Stoke, eftir mikið klafs, og náði að pota boltanum í netið.

Eftir markið róaðist leikurinn nokkuð og var staðan 1-0 í hálfleik. Í þeim síðari var Manchester United mikið mun sterkari aðilinn í leiknum og var með öll tök á vellinum.

Robin van Persie komst í gegn um vörn Stoke á 65. mínútu og var brotið á honum innan vítateigs. Dómarinn gat lítið annað gert en að dæma vítaspyrnu og fór leikmaðurinn sjálfur á punktinn.

Van Persie var öryggið uppmála á punktinum og skoraði örugglega. Leikmaðurinn fagnaði eins og óður maður en hann hefur átt erfitt með að skora að undanförnu.

Leiknum lauk með öruggum sigri United sem er sem fyrr í efsta sæti deildarinnar með 80 stig, 15 stigum á undan grönnum sínum í Manchester City sem eiga reyndar einn leik til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×