Erlent

Jafnaðarmenn aftur til valda

Aleqa Hammond Leiðtogi Siumut-flokksins á kjörstað á þriðjudag.
Aleqa Hammond Leiðtogi Siumut-flokksins á kjörstað á þriðjudag.
Aleqa Hammond, leiðtogi sósíaldemókrataflokksins Siumut, er ótvíræður sigurvegari kosninga til grænlensku landstjórnarinnar, sem haldnar voru á þriðjudag.

„Ég er ánægð með að Siumut er kominn aftur,“ segir hún, en flokkurinn var í forystu landstjórnarinnar í þrjá áratugi, allt frá því að Grænlendingar fengu heimastjórn árið 1979 og þangað til vinstriflokkurinn Inuit Ataqatigiit vann sigur fyrir fjórum árum.

Hammond er jafnframt fyrsta konan sem verður formaður grænlensku landstjórnarinnar.

Siumut hlaut 14 sæti í landstjórninni, þannig að flokknum nægir að fá til liðs við sig einn tveggja manna flokk til að vera með 16 manna meirihluta, en í landstjórninni situr 31 fulltrúi grænlensku þjóðarinnar.

Ríkisstjórn Danmerkur hefur fagnað úrslitunum og vonast eftir betra samstarfi við grænlensku landstjórnina, einkum varðandi auðlindalöggjöfina sem grænlenska þingið samþykkti á síðasta ári.

Auðlindalögin opna á erlendar fjárfestingar í vinnslu auðlinda úr jörðu á Grænlandi og hafa verið kölluð Kínverjalögin vegna þess að Kínverjar hafa sýnt mikinn áhuga á slíkum fjárfestingum.

Til að lögin fái fullt gildi þarf danska þingið hins vegar að gera breytingar á útlendingalöggjöfinni, en hefur verið að bíða með það þangað til eftir kosningarnar á Grænlandi, sem nú eru afstaðnar.

Danskir stjórnmálamenn hafa margir verið ósáttir við grænlensku auðlindalögin en hafa engu að síður ekki viljað neita þeim um breytingar á dönsku útlendingalöggjöfinni.

Siumut-flokkurinn hefur hins vegar sagst vera ósáttur við ýmislegt í lögunum og boðar að þeim verði breytt, þannig að með sigri flokksins er þrýstingi létt af danska þinginu um stund.

„Ég vænti þess að nú hefjist viðræður um þá þætti sem Siumut hefur gagnrýnt,“ er haft eftir Flemming Møller Mortensen, talsmanni danska Sósíaldemókrataflokksins, á fréttasíðu danska dagblaðsins Politiken.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×