Enski boltinn

Benitez: Sýndum hvað við getum í seinni hálfleik

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
„Ég var ánægður með hvernig leikmennirnir brugðust við í hálfleik. Við sýndum gæði, karakter og þetta var mun betra,“ sagði Rafael Benitez eftir 2-2 jafntefli Chelsea gegn Brentford í enska bikarnum í dag.

„Þetta var líkamlegur leikur og við vissum að þetta yrði erfitt. Við misstum boltann of oft klaufalega og hefðum átt að gera betur. Við byrjuðum illa en unnum okkur inn í leikinn.

„Við sýndum hvað við getum í seinni hálfleik eins og í seinni hálfleik gegn Arsenal í síðustu viku. Við getum ekki afsakað það af hverju við lékum svona illa í fyrri hálfleik, við gerðum fátt rétt.

„Oscar og Fernando skoruðu flott mörk og það er vegna þess að liðið lék vel og bjuggum til færi,“ sagði Benitez en bæði mörk Chelsea komu í seinni hálfleik eftir þunga pressu.

„Brentford gerði vel. Við vissum að þeir myndu leika af krafti og pressa á okkur. Við vorum búnir að undirbúa okkur vel og vissum hvað þeir myndu gera en þeir gerðu það vel sem var gott hjá þeim.

„Fyrir okkur er mikilvægt að gera vel í öllum keppnum. Að lenda í fjórum efstu sætunum í deildinni er í forgangi en við viljum líka ná langt í öðrum keppnum. Bikarinn er stór keppni. Chelsea á titil að verja og það ætlum við okkur að gera,“ sagði Benitez.

Uwe Rösler knattspyrnustjóri Brentford var að vonum svekktur að lið hans náði ekki að hanga á forystunni sem liðið var með seint í leiknum.

„Að vera 2-1 yfir þegar fimm mínútur eru eftir þá er maður örlítið svekktur að ná ekki að vinna,“ sagði Þjóðverjinn.

„Þeir voru mikið með boltann en sköpuðu sér ekki mikið af dauðafærum. Við vörðumst vel og unnum vel án boltans.

„Í heildina þá gerðu leikmenn mínir mjög vel. Þeir unnu fyrir því að fá að fara á Stamford Bridge,“ sagði Rösler.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×