Enski boltinn

Rodgers lætur ungu strákana heyra það

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Rodgers allt annað en sáttur eftir ósigurinn í dag.
Rodgers allt annað en sáttur eftir ósigurinn í dag. Mynd/Nordic Photos/Getty
„Við erum ákaflega vonsviknir. Við byrjuðum báða hálfleika illa og var refsað fyrir," sagði Brendan Rodgers knattspyrnustjóri Liverpool eftir 3-2 tapið gegn þriðju deildarliði Oldham í enska bikarnum í dag.

„Ég varð fyrir miklum vonbrigðum með yngri leikmenn liðsins, í allri hreinskilni. Við erum að reyna að veita þeim reynslu láta þá upplifa hvernig er að leika fyrir Liverpool. Þetta snýst ekki bara um að leika fyrir Liverpool, þú verður að berjast og vera hluti af hóp sem ætlar að berjast um titla.

„Frammistaða okkar er mikil vonbrigði vitandi hvað við ætlum okkur. Það er ekki nóg að spila fyrir Liverpool og vera klárir í leiki gegn Arsenal og Manchester City því ef við ætlum okkur að vinna titla þá þurfum við að geta sótt sigra á staði eins og Oldham og við vorum ekki nógu góðir til þess.

„Við vorum ekki nógu ákveðnir framan af, við verðum að vera ákveðnir. Þetta eru öðruvísi leikir en í úrvalsdeildinni. Leikir í deildinni eru fínir, þar reyna liðin að spila boltanum og gefa þér tíma í að stilla upp. Það er allt öðruvísi fótbolti í þessum leikjum. Þú þarft að bretta upp ermar, vera sterkur og ákveðinn og því miður voru of margir í mínu liði sem voru það ekki.

„Þetta er öðruvísi fótbolti, þú verður að vera til taks og láta til þín taka. Það er flott að setja unga leikmenn inn en þeir verða að sýna dug og ungu leikmennirnir ollu vonbrigðum," sagði Rodgers.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×