Innlent

Jón Gnarr skrifaði páfanum um hinsegin fólk á latínu

Kristján Hjálmarsson skrifar
Jón Gnarr er einn aðalræðumanna á ráðstefnu um mannréttndi í Antwerpen.
Jón Gnarr er einn aðalræðumanna á ráðstefnu um mannréttndi í Antwerpen.
"Var Jesús kannski hommi? Hann átti engar kærustur, er það? Kannski það sé í raun ástæðan fyrir því að þeir krossfestu hann?" spurði Jón Gnarr borgarstjóri á ráðstefnu um mannréttindi í Antwerpen í Belgíu í gær.

Jón er einn aðalræðumanna á ráðstefnunni sem haldin er meðfram íþróttaleikunum World Outgames sem haldnir eru í Antwerpen. Eins og kunnugt er sóttist Reykjavíkurborg eftir að halda leikana árið 2017 en þurfti að láta í minni pokann eftir harða keppni við Miami Beach í Bandaríkjunum.

Í ræðu borgarstjórans kom einnig fram að hann hefði skrifað páfanum bréf vegna hómófælni í Vatikaninu en ekki fengið svar þótt bréfið væri skrifað á latínu.

Þá greindi borgarstjóri frá bréfi sínu til borgarstjóra Moskvuborgar í fyrra vegna banns borgarinar við gleðigöngu hinsegin fólks og að hann hefði skorað á borgarstjórann að afnema banni. Jón sagðist heldur ekki hafa fengið svar við því bréfi.

Jón Gnarr staðfesti vilja sinn til að slíta vinasambandi Reykjavíkur við Moskvu og skoraði á aðrar borgir að gera hið sama. Hann sagði að það ætti að vera verkefni stjórnmálamanna almennt að vinna að virðingu fyrir mannréttindum allra íbúa. Það væri ekki síður mikilvægt verkefni að að sjá til þess að gert væri við götur. Þá ítrekaði hann stuðning Reykjavíkurborgar við að næstu hinsegin leikar fari fram í Reykjavík.

Ræðu Jóns Gnarr má lesa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×