Innlent

"Þegar þessi helgi er að renna upp verðum við oft dálítið kvíðin"

Hrund Þórsdóttir skrifar
Þóra Magnea Magnúsdóttir, verkefnastjóri fræðslumála hjá Samgöngustofu, minnir ökumenn á að keyra ekki undir áhrifum.
Þóra Magnea Magnúsdóttir, verkefnastjóri fræðslumála hjá Samgöngustofu, minnir ökumenn á að keyra ekki undir áhrifum.
Við ræddum í dag við Þóru Magneu Magnúsdóttur, verkefnastjóra fræðslumála hjá Samgöngustofu. „Þegar þessi helgi er að renna upp verðum við oft dálítið kvíðin, vitum ekki hvernig hún fer fram en erum að reyna að fá fólk í lið með okkur, að það velti sjálft fyrir sér hvað það geti gert til að allir komi heilir heim,“ segir hún.

Þóra segir óhöpp og slys tengd ölvunarakstri algeng um verslunarmannahelgar. Um 20% banaslysa í umferðinni verða af völdum ökumanna undir áhrifum. Tryggingafélög eiga endurkröfurétt á hendur þeim sem valda slysum undir áhrifum og magn áfengis í blóði þarf ekki að ná refsimörkum til að hægt sé að gera slíka kröfu á hendur ökumanni. Hún segir aldrei borga sig að taka áhættuna. „Það þarf að líða dágóður tími, allt upp í 18 tímar, frá því að áfengis er neytt þar til viðkomandi er orðinn fær um að stjórna bifreiðinni,“ segir Þóra.

Hún segir mikilvægt að keyra á löglegum hraða, raða farangri vel í bíla, nota bílbelti og annan öryggisbúnað og gefa sér nægan tíma því umferðin verði örugglega hægari en venjulega. „Það er spurning um að vera bara slök, njóta lífsins og helgarinnar og koma heil heim.“

Í meðfylgjandi frétt er að finna spjall við nokkra hressa borgarbúa sem sögðu okkur frá helgarplönunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×