Erlent

Biðja Cameron að hætta ekki ESB-aðild

Nick Clegg aðstoðarforsætisráðherra, David Cameron forsætisráðherra og George Osborne fjármálaáðherra í fyrirspurnartíma forsætisráðherra í breska þinginu í gær.
Nick Clegg aðstoðarforsætisráðherra, David Cameron forsætisráðherra og George Osborne fjármálaáðherra í fyrirspurnartíma forsætisráðherra í breska þinginu í gær. Fréttablaðið/AP
Milljarðar punda af skatttekjum gætu glatast færi svo að flosnaði upp úr Evrópusambandsaðild Breta. Viðskiptajöfrar biðla til forsætisráðherra landsins að stíga varlega til jarðar í samskiptum við ESB. Cameron er andsnúinn meiri völdum ESB.

Tíu framámenn í bresku viðskiptalífi vara David Cameron, forsætisráðherra landsins, við því að hann leggi efnahagslíf Breta í hættu flosni upp úr Evrópusambandsaðild vegna endurskoðunar á aðildarsamningi.

Í bréfi sem birt var í Financial Times í vikunni andmæla Richard Branson hjá Virgin Group, Chris Gibson-Smith, forstjóri Lundúnakauphallarinnar, Martin Sorrell, forstjóri WPP, og sjö aðrir breskir viðskiptajöfrar áætlun Camerons um að endursemja um aðild Bretlands að Evrópusambandinu og leggja nýjan samning í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Viðskiptajöfrarnir segja að slík áætlun gæti misheppnast með þeim afleiðingum að Bretland hrektist úr ESB sem yrði skaðlegt breskum fyrirtækjum.

Aðildin að ESB hefur veitt breskum fyrirtækjum aðgang að gríðarstórum innri markaði Evrópuríkja, um leið og landið hefur hönd í bagga með því hvaða stefna verður ofan á í ríkjasambandinu og á fjármálamörkuðum þess. Þá hefur Bretland einnig notið góðs af sjóðum ESB til uppbyggingar innviða ríkja, svo sem við lagningu háhraðaneta. „Milljarðar punda af skatttekjum gætu glatast,“ segja viðskiptajöfrarnir.

Óánægja og vantraust í garð ESB hefur hins vegar farið vaxandi í Bretlandi, sem er eitt tíu landa sambandsins sem ekki hafa tekið upp evru.

Þótt viðskiptajöfrarnir hvetji í bréfi sínu til umbóta innan ESB telja þeir að alhliða endursamningi um aðild yrði nær örugglega hafnað. „Að kalla eftir slíku í ríkjandi kringumstæðum myndi hætta ESB-aðild okkar og búa til skaðlega óvissu fyrir breskt viðskiptalíf, sem er það síðasta sem forsætisráðherrann ætti að vilja gera,“ segja þeir.

Efnahagsþrengingar hafa knúið ESB-löndin sautján sem nota evruna til að bindast sterkari böndum og það gæti dregið úr áhrifamætti ríkja, sem eins og Bretar standa utan evrusamstarfsins.

Þótt Cameron styðji áframhaldandi aðild að ESB og áframhaldandi áhrifum Bretlands innan sambandsins, er hann um leið andsnúinn fyrirætlunum ríkja á borð við Frakkland og Þýskaland um að auka áhrif og völd framkvæmdastjórnar ESB yfir fjármálamörkuðum og lagaumhverfi í öllum löndum sambandsins.

Um miðjan þennan mánuð upplýsir Cameron um afstöðu sína og markmið í viðræðum við ESB.

olikr@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×