Íslenski boltinn

Það er enn töframáttur í fótum Eiðs Smára

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. Mynd/Daníel
Lars Lagerbäck, landsliðsþjálfari, tilkynnti í gær stóran hóp fyrir komandi leiki gegn Sviss ytra og Albaníu heima. Leikurinn gegn Sviss er næsta föstudag og Albaníu-leikurinn fjórum dögum síðar.

Framherjinn sjóðheiti Alfreð Finnbogason er í hópnum en hann er tæpur vegna meiðsla í tá. Eins og staðan er í dag er ólíklegt að hann spili leikinn gegn Sviss.

„Það er alltaf neikvætt þegar öflugur leikmaður dettur út. Alfreð hefur verið að spila frábærlega þannig að eðlilega vil ég hafa hann í liðinu eða til taks á bekknum hið minnsta. Lið eins og það íslenska mun alltaf sakna leikmanns eins og Alfreðs,“ segir Lagerbäck en hann býst ekki við því að riðla leikkerfi liðsins þó svo Alfreð verði ekki með.

Eiður Smári Guðjohnsen hefur átt mjög góðar innkomur í íslenska liðið upp á síðkastið. Hans innkoma hefur oftar en ekki lyft spili liðsins upp á annað plan. Kemur til greina að vera með Eið í byrjunarliðinu að þessu sinni?

„Það er enn töframáttur í fótum Eiðs Smára þó svo hann sé að eldast. Þetta er alltaf spurning um jafnvægið í liðinu en Eiður kemur klárlega til greina í byrjunarliðið. Við Heimir [Hallgrímsson aðstoðarþjálfari] erum að fara yfir leikinn og við vonumst til þess að geta komið Svisslendingum á óvart. Ég vil því ekkert segja um það á þessu stigi hvað við ætlum okkur að gera.“

Lars Lagerbäck var íhugull en á köflum léttur á blaðamannafundi íslenska landsliðsins í gær.Mynd/Stefán



Fleiri fréttir

Sjá meira


×