Fótbolti

Eiður Smári skoraði fyrir Club Brugge

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. Mynd/NordicPhotos/Getty
Eiður Smári Guðjohnsen fékk sjaldgæft tækifæri í byrjunarliði Club Brugge í belgísku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld og íslenski landsliðsmaðurinn þakkaði fyrir það með því að skora annað mark liðsins í 3-0 sigri á  Mechelen.

Club Brugge liðið komst upp í annað sæti deildarinnar með þessum sigri en liðið er nú einu stigi á eftir toppliði Standard Liège sem á leik inni.

Þetta er fyrsta mark Eiðs Smára á leiktíðinni en hann var ekki búinn að skora í fyrstu tíu leikjum sínum á tímabilinu. Eiður skoraði heldur ekki í sex síðustu deildarleikjum sínum á síðustu leiktíð og var því búinn að bíða lengi eftir þessu marki eða alls í 16 leiki.

Mark Eiðs Smára kom á 35. mínútu en tólf mínútum áður hafi Vadis Odjidja-Ofoe komið Club Brugge í 1-0 í leiknum. Jesper Jørgensen lagði upp markið fyrir Eið Smára og skoraði síðan þriðja og síðasta markið sjálfur.

Eiður Smári Guðjohnsen átti fínan leik og fékk heiðursskiptingu á lokamínútu leiksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×