Fótbolti

Segir Heimi hafa þann persónuleika sem þarf til að stýra landsliðinu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Strákunum okkar hefur gengið vel upp á síðkastið undir stjórn Lars Lagerbäck og Heimis.
Strákunum okkar hefur gengið vel upp á síðkastið undir stjórn Lars Lagerbäck og Heimis. Fréttablaðið/Pjetur
Lars Lagerbäck, þjálfari karlalandsliðs Íslands, líst vel á að aðstoðarmaður hans, Heimir Hallgrímsson, taki við liðinu í framtíðinni.

„Ég var mjög heppinn að fá Heimi sem minn aðstoðarmann,“ segir Lagerbäck og bendir á að KSÍ hafi lagt hann til. Þeir hafi náð vel saman og séu góðir vinir.

Áhætta sé alltaf tekin þegar tveir þjálfarar vinni saman. Hann hafi hins vegar dottið í lukkupottinn og þakkar fyrir hve fróður Heimir er um íslenska knattspyrnu.

„Ég hef þjálfað í 35 ár og ég er 100 prósent á því að Heimir sé góður kandídat. Þú þarft að hafa þekkingu og einnig er gott að hafa reynslu við landsliðsþjálfun sem hann hefur,“ segir Lagerbäck.

Samningur Svíans rennur út í lok undankeppni HM og óljóst hvað við tekur. Greinilegt er að hann hefur miklar mætur á Heimi.

„Landsliðsþjálfari þarf að hafa góðan persónuleika til þess að leiða hóp leikmanna. Heimir hefur hann.“

Þjálfararnir vinna nú að undirbúningi fyrir landsleik Íslands og Kýpur á Laugardalsvelli þann 11. október. Miðar fóru í sölu á miðvikudaginn og nú er uppselt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×