Enski boltinn

Gylfi segir hegðun Gareth Bale til skammar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Gylfi Þór Sigurðsson segir til skammar að velski knattspyrnumaðurinn Gareth Bale hafi skírt dóttur sína í höfuðið á knattspyrnustjóra Tottenham, Andre Villas-Boas.

Gylfi Þór Sigurðsson var í skemmtilegu viðtali í útvarpsþættinum FM 95BLÖ og sló á létta strengi. Gylfi fór á kostum í landsleik Íslands gegn Slóveníu í undankeppni HM 2014 á föstudaginn.

Gylfi skoraði bæði mörk Íslands í 2-1 sigri en fyrra markið var úr aukaspyrnu langt utan af velli. Gylfi hefur æft aukaspyrnur sérstaklega frá unga aldri en grínaðist með það að lukkan hefði einfaldlega verið með honum í þetta skiptið.

Verð að sýna þeim aukaspyrnuna
Mynd/AP
„Þetta var bara algjör heppni. Þeir voru almennilegir við mig og leyfðu mér að taka hana (innsk: aukaspyrnuna). Vonandi fæ ég að taka fleiri eftir þetta," sagði Gylfi. Landsliðsmaðurinn hefur ekki fengið að taka margar aukaspyrnur hjá Tottenham en vonandi breytist það.

„Ég verð að sýna þeim aukaspyrnuna ef þeir hafa ekki séð hana nú þegar. Maður verður að gera eitthvað til að fá að taka þær," sagði Gylfi léttur. Hann segir markið sitt flottasta ásamt þrumufleyg sínum gegn U21 árs landsliði Skotlands í umspilsleikjunum fyrir EM 2011.

Gylfi verður í banni þegar Ísland tekur á móti Slóveníu í byrjun júní. Gylfi fékk gult spjald í 1-0 sigurleik Íslands í Albaníu fyrir að fagna sigurmarki sínu með því að fara úr að ofan. Í Slóveníu reif hann niður sóknarmann Slóvena sem var að komast í gott færi.

„Auðvitað sé ég eftir því núna fyrst það gerðist ekkert í þessari sókn. Hann var á leiðinni inn í boxið og ég vissi ekki hvað var að fara að gerast. Ég mat að ég þyrfti að reyna að stoppa þetta."

Gerrard er tuddi
Mynd/Nordic Photos/Getty
Seinna mark Gylfa var einnig glæsilegt. Hann fékk þá sendingu frá Eiði Smára Guðjohnsen, sem hafði verið inni á vellinum í aðeins tvær mínútur. Gylfi tók frábærlega við knettinum, skapaði sér færi með sinni fyrstu snertingu og fíflaði markmanninn upp úr skónum. Samir Handanovic, markvörður Inter, lagðist til vinstri og Gylfi lagði boltann í hitt hornið.

„Ég gaf honum augun eins og ég væri að fara að setja boltann í fjærhornið og rúllaði honum í nær," segir Gylfi og tekur undir að líklega sé ekkert mikilvægara knattspyrnumönnum en góður skammtur af sjálfstrausti. Það hafi hann þessa dagana.

Tottenham á í harðri keppni um sæti í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð. Hann telur Chelsea helsta keppinaut Spurs en Arsenal geti þó enn komið tilbaka á lokasprettinum.

Hafnfirðingurinn var beðinn um að meta þá leikmenn sem hefðu reynst honum erfiðastir á tímabilinu. Gylfi þurfti að hugsa sig um í nokkrar sekúndur en nefndi svo Steven Gerrard, fyrirliða Liverpool.

„Gerrard er tuddi og það er leiðinlegt að spila við hann. Aguero og Silva eru líklega erfiðustu leikmennirnir," segir Gylfi sem er sáttur við sína fyrstu leiktíð hjá Tottenham.

Til skammar hjá Bale
Mynd/Nordic Photos/Getty
„Það kom smá tímabil þar sem ég byrjaði ekki alla leiki. Ég hef komið inná í flestum leikjum og verið að byrja upp á síðkastið. Fyrir tímabilið bjóst ég kannski ekki við því að spila svona mikið á mínu fyrsta tímabili," sagði Gylfi.

Gareth Bale, skærasta stjarna Tottenham, hefur farið á kostum á tímabilinu. Var borið undir Gylfa hvort Walesverjinn væri ekki heldur mikil sleikja þegar kæmi að stjóranum, Andre Villas-Boas.

„Hann skírði dóttur sína eftir honum. Þetta er fáránlegt," sagði Gylfi hlæjandi og bætti við léttur: „Það er til skammar að gera þetta." Vísar Gylfi þar í að Bale skírði dóttur sína Alba Violet Bale en upphafsstafirnir, AVB, eru þeir sömu og hjá portúgalska stjóranum.

Var Gylfi minntur á leik West Ham og Tottenham í febrúar þegar okkar maður kom af bekknum og breytti gangi leiksins. Spurs vann 3-2 sigur en eftir leikinn virtist Villas-Boas gefa öllum leikmönnum Spurs faðmlag úti á vellinum, nema Gylfa.

„Hann hefur verið eitthvað hræddur við mig. Ég byrjaði á bekknum í þessum leik," sagði Gylfi kíminn.

Reikna má með því að Gylfi verði í byrjunarliði Spurs þegar liðið sækir Swansea heim í ensku úrvalsdeildinni á laugardaginn. Gylfi sló einmitt í gegn með Swansea seinni hluta síðustu leiktíðar og var kjörinn besti leikmaður marsmánaðar.

Hægt er að hlusta á viðtalið við landsliðshetjuna í spilaranum hér fyrir ofan.

Íþróttadeild Vísis er komin á Fésbókina. Smellið hér til þess að slást í hópinn og fá nýjustu tíðindi úr heimi íþróttanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×