Fótbolti

Lizarazu: Ekki fagmannlegt hjá Beckham

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David Beckham.
David Beckham. Mynd/Nordic Photos/Getty
Bixente Lizarazu, fyrrum leikmaður franska landsliðsins, hefur gagnrýnt David Beckham opinberlega fyrir þá ákvörðun sína að stinga af til Kína í landsleikjahléinu.

Beckham er nýkominn til Paris Saint-Germain en það virtist samt ekki skipta enska miðjumanninn miklu máli að liðið væri að fara mæta Barcelona í Meistaradeildinni í næstu viku. Hann fór samt í ferð hinum megin á hnöttinn.

„Það er bara ekki í lagi að ferðast til Kína til að kynna fótbolta aðeins tíu dögum fyrir mikilvægasta leik tímabilsins," sagði Bixente Lizarazu í viðtali við TF1.

„Ekkert annað félag hefði leyft sínum leikmanni að fara í svona ferð. Þetta er mjög ófagmannlegt," sagði Lizarazu.

„Það er því ekki skrýtið að maður spyrji sig nú hvort að Beckham sé markaðstól eða fótboltamaður. Það er svo sem ágætt ef að hann er markaðstól því núna er fólk út um allan heim að tala um PSG. Menn eiga ekki að reyna að fela það og láta þetta líta út eins og hann sé kominn til félagsins til að spila fótbolta," sagði Lizarazu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×