Lífið

Bjargað af engli

l "Mér skilst að reykur eigi að svæfa fólk en ekki vekja það,“ segir Snorri.
l "Mér skilst að reykur eigi að svæfa fólk en ekki vekja það,“ segir Snorri. Fréttablaðið/Heiða
Snorri Ásmundsson myndlistarmaður varð fyrir óskemmtilegri reynslu fyrir jólin.

„Ég var að vinna mikið fyrir jól og þegar það er svona mikið að gera þá gisti ég stundum á vinnustofunni. Ég hafði verið að vinna lengi kvöldið áður og sofnaði. Ég glaðvaknaði svo klukkan fjögur að nóttu til og þegar ég opna augun þá er allt fullt af reyk,“ útskýrir Snorri, sem segist varla hafa séð frá sér fyrir reyknum.

„Ég hélt fyrst að ég væri inn í einhverju ævintýri í draumaheimi, en stekk á fætur og sé að borðið hjá mér er í ljósum logum,“ segir Snorri, og segist hafa verið reglulega brugðið.

„Ég hljóp og náði í vatn og slökkti eldinn og lofta út. Þegar ég er búin að lofta út í svona einn og hálfan tíma, var ég orðin þreyttur þannig að ég lagðist aftur og sofnaði,“ segir Snorri um atburðarásina.

Af vinnustofunni
Snorri vaknaði svo aftur tveimur tímum seinna.

„Það var eiginlega ekki fyrr en ég vaknaði aftur sem ég gerði mér grein fyrir því sem hafði gerst,“ segir Snorri jafnframt.

„Ég gerði mér líka grein fyrir því þá að ég var vakinn. Mér skilst að reykur eigi að svæfa fólk en ekki vekja það,“ segir Snorri.

„Það er ekkert sem útskýrir það að ég hafi vaknað við þessar aðstæður. Þegar ég átta mig á eldinum á borðinu þá er hann að dreifast og borðið logaði allt. Eldurinn var farinn í blaðahrúgur og teikningar. Ef ég hefði brugðist við 10-15 sekúndum seinna hefði orðið eldhaf,“ bætir Snorri við og segir ljóst að einhver vaki yfir honum. 

„Mig grunar að það hafi verið Master Hilarion, en hann var prestur í musteri sannleikans á Atlantis, og er á mynd á vinnustofunni minni. Hann hefur horft á eldinn og vakið mig. Öðruvísi get ég ekki útskýrt þetta,“ segir Snorri og er þakklátur fyrir að allt fór vel.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.