Fótbolti

Alfreð leikmaður ársins í Hollandi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Alfreð fagnar marki með liðsfélögum sínum.
Alfreð fagnar marki með liðsfélögum sínum. Nordicphotos/Getty
Landsliðsframherjinn Alfreð Finnbogason hefur verið valinn besti leikmaður ársins 2013 í hollensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu af vefsíðunni football-oranje.com.

Alfreð skoraði 27 mörk í 30 leikjum í deildinni á árinu með liði sínu Heerenveen. Hann varð þriðji markahæsti leikmaður deildarinnar í fyrra og er sá markahæsti nú þegar deildin er komin í jólafrí.

Annað árið í röð skorar Alfreð þrjátíu mörk eða fleiri í öllum keppnum sem er einstakt afrek íslensks atvinnumanns í knattspyrnu. Fjallað var um afrek Alfreðs í Fréttablaðinu á dögunum.

Lið ársins var valið Ajax og hollenski leikmaður ársins Arjen Robben. Frank de Boer, þjálfari Ajax, var kjörinn þjálfari ársins og mark Robben í úrslitaleik Meistaradeildar á Wembley í vor er mark ársins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×