Enski boltinn

Mata tryggði Chelsea sigur á Old Trafford

Chelsea endurheimti þriðja sætið í ensku úrvalsdeildinni eftir 1-0 sigur á Englandsmeisturum Manchester United á Old Trafford. Juan Manuel Mata skoraði sigurmarkið þremur mínútum fyrir leikslok en United-liðið endaði leikinn með tíu leikmenn.

Chelsea varð þarna fyrsta liðið til að halda marki sínu hreinu á móti Manchester United í deildarleik á Old Traffird síðan í desember 2009 eða í 66 leikjum.

Chelsea er nú með 68 stig eða einu stigi meira en Arsenal og þremur meira en Tottenham en þessi þrjú lið eru að berjast um tvö sæti sem gefa sæti í Meistaradeildinni.

Juan Manuel Mata var hetja Chelsea þegar hann skoraði með skoti utan úr teig eftir laglega sókn og sendingu frá Oscar.

Skömmu síðar fékk Rafael að líta rautt spjald fyrir að sparka landa sinn David Luiz niður við hornfána. Luiz lá eftir glottandi á jörðinni en aðstoðardómarinn var viss í sinni sök.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×