Enski boltinn

Mark dæmt af Everton og markalaust á Anfield

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/NordicPhotos/Getty
Liverpool og Everton gerðu markalaust jafntefli á Anfield í ensku úrvalsdeildinni í dag og er Everton því áfram með fimm stiga forskot á nágranna sína í Bítlaborginni. Það er því nánast öruggt að Everton endar ofar en Liverpool í ár.

Leikurinn var heilt yfir tilþrifalítill og með slakari Merseyside derby-leikjum síðustu ára. Liverpool þurfti sigur til að eiga von um að ná Everton í lokaumferðunum og Liverpool-menn voru sterkari í seinni hálfleiknum eftir jafnan fyrri hálfleik

Everton skoraði reyndar að því virtist löglegt mark á 56. mínútu þegar Sylvain Distin  skoraði með skalla eftir hornspyrnu Leighton Baines. Dómarinn Michael Oliver dæmdi hinsvegar markið af við mikil mótmæli Everton-manna. 

Endursýningar í sjónvarpinu vörpuðu litlu sem engu ljósi á það af hverju Oliver dæmdi markið af. Liverpool-menn sluppu því með skrekkinn en þeir fengu síðan sín færi til þess að skora sigurmarkið í þessum leik. Ekkert mark leit þó dagsins ljós og ekkert breyttist því í stigatöflunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×