Innlent

Líst illa á hugmyndir Vigdísar

Boði Logason skrifar
„Mér líst illa á þetta, ég held að þetta geti haft neikvæð áhrif á það að námsmenn sæki í framhaldsmenntun erlendis, til dæmis master og doktorsnám," segir Þorbjörn.
„Mér líst illa á þetta, ég held að þetta geti haft neikvæð áhrif á það að námsmenn sæki í framhaldsmenntun erlendis, til dæmis master og doktorsnám," segir Þorbjörn.
Formaður læknafélags Ísland segir að hugmyndir Vigdísar Hauksdóttur, að leggja eigi álag á íslenska námsmenn sem ílengjast í námi erlendis, setji átthagafjötra á námsmenn.

Í Fréttablaðinu í dag segir Vigdís, sem er formaður fjárlaganefndar, að rétt sé að skoða hvort að rukka eigi íslenska námsmenn sem taka námslán til að fjármagna nám erlendis en skila sér ekki heim að námi loknu, um markaðsvexti af námslánunum.

Vigdís segir að þetta séu vangaveltur hjá sér, en hefur lagt fram fyrirspurn á Alþingi þar sem Illugi Gunnarsson menntamálráðherra er spurður um málið.

Í samtali við blaðið segir hún að allir sjóðir ríkissjóðs séu tómir, og nauðsynlegt sé að forgangsraða gríðarlega í ríkisrekstrinum. Það sé ekki óeðlilegt að þeir námsmenn sem skila sér ekki heim borgi einhverskonar álag, enda séu vextir af námslánum langt undir markaðsvöxtum.

Þorbjörn Jónsson, formaður læknafélags Íslands, segir að verði hugmynd Vigdísar að veruleika, geti það haft neikvæð áhrif á það námsmenn sæki í framhaldsnám erlendis.

„Mér líst illa á þetta, ég held að þetta geti haft neikvæð áhrif á það að námsmenn sæki í framhaldsmenntun erlendis, til dæmis master og doktorsnám.  Það er auðvitað neikvætt fyrir Íslendinga því eitt af því góða við samsetningu á íslenskum menntamönnum er að þeir hafa leitað sér menntunar víða erlendis. Það er ekki hægt að líta á þetta þannig að námsmenn séu með einhverskonar átthagafjötra þó þeir leiti sér náms erlendis, það er mjög neikvætt.“

En nú myndu einhverjir segja að það sé ósanngjarnt að þekking þessara námsmanna, sem fá þessi námslán á lágum vöxtum, skili sér ekki aftur til Íslands?

„Ég held að það megi nú líta á það þannig að foreldrar þessara ungmenna hafa borgað skatta og skyldur, og þetta sé eitthvað sem þeir hafa lagt til þjóðfélagsins fyrir börn sín,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×