Alfreð Finnbogason og félagar í SC Heerenveen mæta Feyenoord frá Rotterdam í hádegisleiknum í hollensku úrvalsdeildinni en þarna mætast tveir markahæstu leikmenn deildarinnar.
Alfreð hefur skorað 14 mörk í 12 leikjum og er með tveggja marka forskot á Ítalann Graziano Pellè hjá Feyenoord sem er búinn að skora tólf mörk í þrettán leikjum.
Graziano Pellè skoraði tvö mörk í síðustu umferð í 3-1 sigri á PSV en hafði þá ekki skorað síðan 6. október. Pellè fékk tveggja leikja bann fyrir rautt spjald og skoraði heldur ekki í fyrsta leik eftir bann.
Alfreð hefur líka misst af leikjum að undanförnu vegna meiðsla aftan í læri en var með í síðasta leik.
Alfreð skoraði og lagði upp mark þegar Heerenveen vann 2-0 sigur á Feyenoord í sama leik í fyrra.
Alfreð mætir Pellè í uppgjöri markahæstu mannanna
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
