Enski boltinn

Chelsea tók þriðja sætið af Tottenham

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Chelsea nýtti sér tvö töpuð stig hjá Tottenham fyrr í dag og komst upp í þriðja sæti ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta eftir 2-1 sigur á Sunderland á Stamford Bridge í dag. Branislav Ivanović skoraði sigurmarkið á 55. mínútu en hann var sá eini í dag sem skoraði í rétt mark.

Chelsea og Tottenham eru nú bæði með 58 stig en Chelsea er ofar á betri markatölu. Þetta var fimmti heimasigur í röð í deildinni og gott gengi á Brúnni ætlar að nýtast liðinu vel í baráttunni um Meistaradeildarsæti.

Paolo Di Canio stýrði Sunderland-liðinu í fyrsta sinn og þetta leit vel út í hálfleik eftir að liðið hans komst í 1-0 rétt fyrir hálfleik eftir sjálfsmark César Azpilicueta.

Chelsea jafnaði hinsvegar í upphafi seinni hálfleiks þegar Matthew Kilgallon skoraði í eigið mark. Markið kom eftir laglega sókn þar sem Fernando Torres spilaði stórt hlutverk en spænski framherjinn kom inn á sem varamaður í hálfleik.

Það tók Chelsea aðeins sjö mínútur að komast yfir. Branislav Ivanović skoraði þá með laglegri hælspyrnu þegar hann stýrði þá inn skoti Brasilíumannsins David Luiz.

Fleiri urðu mörkin ekki og Paolo Di Canio varð því að sætta sig við tap í fyrsta leik. Sunderland hefur nú leikið níu deildarleiki í röð án þess að vinna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×