Enski boltinn

QPR missti af sigri á síðustu sekúndunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Harry Redknapp og lærisveinar hans í Queens Park Rangers misstu af sigri á síðustu sekúndunum þegar liðið gerði 1-1 jafntefli við Wigan í sannkölluðum sex stiga leik í fallbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar.

Shaun Maloney skoraði jöfnunarmark Wigan með skoti beint úr aukaspyrnu á fjórðu mínútu í uppbótartíma en QPR þurfti nauðsynlega á öllum þremur stigunum að halda.

Bæði lið sitja áfram í fallsæti en Queens Park Rangers er áfram sjö stigum á eftir Wigan og Wigan-liðið á auk þess leik inni.

Queens Park Rangers var manni færri síðustu 70 mínútur leiksins eftir að Bobby Zamora fékk beint rautt spjald á 21. mínútu fyrir að fara með takkana í höfuð Jordi Gomez.

Loic Remy kom Queens Park Rangers í 1-0 á 85. mínútu með frábæru marki eftir skyndisókn og sendingu Stéphane M'Bia. Það stefndi allt í að þetta yrði sigurmarkið en svo fór nú ekki.

Stéphane M'Bia breyttist úr hetju í skúrk þegar hann fékk á sig klaufalega aukaspyrnu rétt fyrir utan vítateig. Shaun Maloney tók hana og skoraði með frábæru skoti. Wigan-menn fögnuðu gríðarlega enda markið afar mikilvægt í baráttunni um áframhaldandi sæti í deildinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×