Enski boltinn

Usmanov: Henry vill að ég kaupi Arsenal

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Usmanov er einn ríkasti maður heims en hann hagnaðist mikið í olíubransanum í Rússlandi.
Usmanov er einn ríkasti maður heims en hann hagnaðist mikið í olíubransanum í Rússlandi. Nordic Photos / Getty Images
Úsbekinn Alisher Usmanov, sem á 30 prósenta hlut í Arsenal, segir að aðrir eigendur hafi komið illa fram við sig og vilji losna við sig.

Usmanov sagði þetta í samtali við franska dagblaðið L'Equipe og gagnrýndi einnig leikmannastefnu félagsins og Stan Kroenke, sem á stærstan hlut í félaginu.

Usmanov fékk á sínum tíma tækifæri til að gerast meirihlutaeigandi í félaginu en að aðrir eigendur hefðu komið í veg fyrir það með hræðsluáróðri. Hann fullyrðir hins vegar að Arsenal-goðsögnin Thierry Henry sé á sínu bandi.

„Ég hef hrifist af mörgum knattspyrnumönnum og er í sambandi við nokkra þeirra. Sá sem hefur verið í uppáhaldi hjá mér síðustu 10-15 ár er Thierry Henry. Hann hefur hvatt mig til að kaupa öll hlutabréf Arsenal. En ég get ekki spáð um framtíðina," sagði Usmanov.

„En ég var tilbúinn til að taka yfir félagið þegar sá möguleiki bauðst. En það reyndist ekki hægt því ákveðnir einstaklingar vildu frekar græða pening og gera mig að óvini."

„Enn þann daginn í dag er litið á mig sem sjóræningja og utanaðkomandi óvin. Það er leikur sem þeir hafa unnið."

Hann segir að stjórinn Arsene Wenger sé í erfiðri stöðu í félaginu. „Ég held að hann eigi það skilið að geta keypt þá leikmenn sem félagið þarf á að halda hverju sinni," sagði Usmanov.

„Hann á ekki að sætta sig við að þurfa að selja sína bestu leikmenn til keppinauta sinna. En hann hefur þurft að færa fórnir og er það okkur öllum að kenna. Þetta er allt í höndum hr. Kroenke og ég vona að áætlanir hans gangi eftir, þó svo að ég sé ekki sammála þeim."

„Mesta afrek Arsene Wenger er að hafa búið til tvö lið. Eitt lið sem spilar nú fyrir keppinauta okkar og eitt sem er að reyna að halda í við þá bestu í ensku úrvalsdeildinni."

Usmanov segist ekki ætla að þvinga sig upp á félagið. „En ég lít enn á þetta sem góða fjárfestingu og vildi gjarnan þjóna þessu félagi. En svo virðist sem að Arsenal hafi í dag ekki þörf fyrir mig."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×