Swansea City og Liverpool féllu bæði út úr enska deildabikarnum í fótbolta í kvöld. Liverpool tapaði 0-1 fyrir Manchester United á Old Trafford en Swansea City steinlá á útivelli á móti b-deildarliði Birmingham.
Birmingham komst í 3-0 á móti Swansea City en Wilfried Bony minnkaði muninn undir lokin.
Javier Hernández skoraði sigurmark Manchester United á móti Liverpool með marki eftir hornspyrnu Wayne Rooney þegar aðeins 39 sekúndur voru liðnar af seinni hálfleik.
Luis Suárez og félagar í Liverpool fengu færi til að skora en þau fóru öll forgörðum og United fagnaði sigri á móti erkifjendunum.
Newcastle sló úr Leeds og Stoke City vann útisigur á Tranmere Rovers með mörkum reynsluboltanna Stephen Ireland og Peter Crouch.
Úrslit og markaskorarar í enska deildabikarnum í kvöld:
Manchester United - Liverpool 1-0
1-0 Javier Hernández (46.)
Newcastle - Leeds 2-0
1-0 Papiss Cissé (31.), 2-0 Yoan Gouffran (66.)
Tranmere Rovers - Stoke City 0-2
0-1 Stephen Ireland (23.), 0-2 Peter Crouch (90.)
Birmingham - Swansea City 3-1
1-0 Dan Burn (56.), 2-0 Matt Green (61.), 3-0 Tom Adeyemi (81.), 3-1 Wilfried Bony (90.).
West Bromwich Albion - Arsenal 1-1 (framlengt)
0-1 Thomas Eisfeld (61.), 1-1 Saido Berahino (71.)
Swansea steinlá - úrslitin í enska deildarbikarnum í kvöld
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
