Enski boltinn

Ógeðfelldur fréttaflutningur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images

Umboðsmaður Christian Benteke segir það alveg ljóst að blaðamaður The Sun hafði rangt eftir skjólstæðingi sínum í viðtali sem birtist í dag.

Í umfjöllun blaðsins var Benteke orðaður við flest stóru liðin í ensku úrvalsdeildinni og gefið í skyn að hann myndi gera allt sem gæti til að losna frá félaginu.

Benteke sló í gegn hjá Aston Villa á nýliðnu tímabili og hefur verið orðaður við önnur og sterkari lið í ensku úrvalsdeildinni.

„Christian og ég erum furðu lostnir yfir frétt sem birtist í The Sun. Það var rangt haft eftir honum,“ sagði umboðsmaðurinn við enska fjölmiðla.

„Það eina sem er rétt er Christian vill ekki koma af stað stríði við Aston Villa. Hann hringdi í mig frá New York í dag og finnst fréttaflutningurinn ógeðfelldur.“

„Ég sagði honum að tala ekki við fleiri fjölmiðlamenn úr þessu. Það er eðlilegt að það sé áhugi á honum en hvorki ég né Christian ætlum að búa til einhver vandamál.“

Fyrr í morgun sagði Paul Lambert, stjóri Aston Villa, að ummælin hefðu komið honum á óvart. „Ég veit ekki hvað gerðist nákvæmlega en hann á þrjú ár eftir af samningi sínum við Aston villa.“

„Ég held að við þurfum að koma niður á jörðina. Strákurinn er rétt að byrja og er búinn að vera í Bretlandi í aðeins tíu mánuði. Allir elska hann hjá Aston Villa.“

„Hann má ekki gleyma að hann er bara 22 ára gamall. Hann á enn margt eftir ólært.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×