Innlent

Tugir manna við leit í nótt

Heimir Már Pétursson skrifar
Mikil leit stendur nú yfir eftir að refaskytta féll í Hjaltadalsá í Hjaltadal.
Mikil leit stendur nú yfir eftir að refaskytta féll í Hjaltadalsá í Hjaltadal.

Umfangsmikil leit að refaskyttu sem féll í Hjaltadalsá í Hjaltadal eftir hádegi í gær hefur engan árangur borið en tugir leitarmanna voru að störfum í nótt og þyrla Landhelgisgæslunnar flaug yfir leitarsvæðið með hitamyndavél í gærkvöldi. Ingólfur Haraldsson í svæðisstjórn björgunarsveitanna segir að um fimmtíu björgunarsveitarmenn hafi tekið þátt í leitinni í nótt. Búið sé að leita í ánni nokkrum sinnum. Björgunarsveitarmenn hafi m.a. gengið upp og niður með ánni.

Ingólfur segir menn meðal annars slakað bát í taumi niður með ánni með mönnum um borð með stjaka og krækjur. Þá hafi menn gengið um tvo kílómetra upp og niður með ánni frá þeim stað þar sem síðast sást til mannsins og einnig alla leið niður í árósana og fjörur þar í kring. Bjart hafi verið til leitar í nótt en áin sjálf sé mórauð og mjög straumhörð en rennslið í henni sé um fimm til sjö kílómetrar.

Þyrla Landhelgisgæslunnar hafi flogið nokkrum sinnum yfir svæðið í gærkvöldi og leitað með hitamyndavél. Björgunarsveitarmenn úr Eyjafirði og Húnavatnssýslum hafa tekið þátt í leitinni, sem nær yfir allt stórt svæði. Klukkan átta er gert ráð fyrir að þeir björgunarsveitamenn sem nú eru við leit fari í hvíld og aðrir taki við. Í hádeginu verður staðan metin með lögreglu og ákvörðun um framhaldið tekin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×