Enski boltinn

Green: Glasgow Rangers spilar í ensku deildinni innan fimm ára

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Charles Green, framkvæmdastjóri skoska félagsins Glasgow Rangers, spáir því að liðið hans verði farið að spila í ensku deildarkeppninni innan fimm ára.

Skoska félagið gæti reyndar þurft að byrja í utandeildinni til að vinna sig upp í ensku úrvalsdeildinni en Green segir að skoska félagið sé alveg tilbúið í slíkt.

Glasgow Rangers er sigursælasta félag Skotlands með 54 meistaratitla og 33 bikarmeistaratitla en leikur þessa dagana í skosku d-deildinni eftir að félagið fór á hausinn á síðasta ári. Glasgow Rangers hefur 21 stigs forskot í d-deildinni eftir 21 sigur og 7 jafntefli í 30 leikjum.

„Hvort sem það er í næstu viku, ef enskir ráðamenn breyta um skoðun, eða eftir fimm til tíu ár, þá tel ég öruggt að bæði Rangers og Celtic muni yfirgefa Skotland," sagði í viðtalí í Daily Mirror.

„Ég spái því að þetta verði bara fimm ár. Ég segi við ensku félögin að vera ekki hrædd við hið óþekkta. Það verða millilandadeildir í framtíðinni og það mun breyta evrópskum fótbolta. Dyrnar eru að opnast," sagði Green.

Green telur að bæði Rangers og Celtic geti gert ensku úrvalsdeildina enn betri en hún er í dag og að skosku félögin myndu auka aðsókn á leikina enda mikill og stór aðdáendaklúbbur á bak við bæði liðin í Skotlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×