Enski boltinn

Adkins boðið að taka við Reading

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Enskir fjölmiðlar greina frá því að forráðamenn Reading hafi boðið Nigel Adkins að taka við starfi knattspyrnustjóra hjá félaginu.

Adkins kom Southampton upp í ensku úrvalsdeildina úr C-deildinni á aðeins tveimur árum en var rekinn í janúar síðastliðnum eftir slæmt gengi nýliðanna á fyrri hluta tímabilsins.

Það er þó ekki enn búið að ganga frá formlegum starfslokum Adkins hjá Southampton og þangað til getur hann í raun ekki ráðið sig til Reading.

Adkins er 48 ára og vann sem sjúkraþjálfari hjá Scunthorpe í áratug áður en hann tók við liðinu árið 2006. Hann fór svo til Southampton árið 2010.

Reading er sem stendur sjö stigum frá öruggu sæti í ensku úrvalsdeildinn og mætir Arsenal um helgina. Liðið á svo mikilvægan leik gegn Souhtampton, gamla félagi Adkins, viku síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×