Innlent

"Þvílík dæmalaus tvöfeldni"

Þingmaðurinn Björgvin G. Sigurðsson er einn þeirra sem hafa tjáð sig vegna tillagna stjórnar HB Granda að greiða hluthöfum 1,7 milljarð króna í arð.

Gengið hefur verið frá ársreikningi HB Granda og voru lykiltölur birtar á vefsíðu fyrirtækisins í vikunni. Hagnaður ársins hjá HB Granda var tæplega 2,4 milljarðar króna en heildarskuldir þess eru rúmir 21 milljarður króna.

Heildarafli skipa félagsins á árinu var um 50 þúsund tonn af botnfiski og 149 þúsund tonn af uppsjávarfiski. Aðrar lykiltölur fyrirtækisins má sjá á heimasíðu þess.

Aðalfundur félagsins fer fram föstudaginn 19. apríl. Stjórn félagsins leggur til að tæplega 1,7 milljarður króna verði greiddur til hluthafa í arð vegna rekstrarársins 2013. Arðinn skuli greiða þann 30. apríl.

Björgvini G. Sigurðssyni, þingmanni Samfylkingarinnar, blöskrar tillaga stjórnar HB Granda um háar arðgreiðslur á sama tíma og sjómönnum sé sagt upp störfum.

„Þvílík dæmalaus tvöfeldni, segir upp sjómönnum og lætur öllum illum látum, að sögn vegna eðlilegs veiðigjalds, og dælir svo út hagnaði upp á þetta."

Skipulagsbreytingar hafa staðið yfir hjá HB Granda undanfarnar vikur. Mun sjómönnum væntanlega fækka um 34 við breytingarnar en störfum í landvinnslu fjölga um 50 skv. frétt Rúv í febrúar. Er reiknað með því að uppsagnir og ráðningar taki gildi þann 1. júlí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×