Fótbolti

Sautján ára varamaður tryggði Ajax stigin þrjú

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Kolbeinn Sigþórsson
Kolbeinn Sigþórsson Mynd/Gettyimages
Kolbeinn Sigþórsson var í byrjunarliði Ajax sem stal 2-1 sigri gegn Roda í hollensku úrvalsdeildinni í dag. Kolbeinn spilaði rúmlega klukkutíma í dag og fékk ágæt færi en náði ekki að skora.

Sextán stigum munaði á liðunum fyrir leiki dagsins en það er ekki spurt að því í fótbolta. Henk Dijkhuizen kom Roda yfir í fyrri hálfleik og virtist allt stefna í mikilvægan sigur hjá Roda þegar skammt var til leiksloka. Frank de Boer henti sautján ára varnarmanni, Jairo Riedewald inná tíu mínútum fyrir leikslok og hann átti aldeilis eftir að hafa áhrif.

Riedewald jafnaði metin fyrir Ajax þegar þrjár mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma og skoraði svo sitt annað mark í leiknum í uppbótartíma sem tryggði Ajax stigin þrjú.

Með sigrinum komst Ajax upp fyrir Vitesse í efsta sæti hollensku úrvalsdeildarinnar á markamun fyrir jólafrí. Næsti leikur Ajax er gegn erkifjendunum PSV 19. janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×