Enski boltinn

Lukaku blæs á sögusagnir um ósætti

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Romelu Lukaku og Jose Mourinho
Romelu Lukaku og Jose Mourinho Mynd/Gettyimages
Romelu Lukaku hefur blásið á sögusagnir að samband hans og Jose Mourinho sé stirt. Lukaku fór á lán til Everton á þessu tímabili og hefur staðið sig vel í Bítlaborginni.

Það vakti eðlilega athygli þegar Chelsea ákvað að lána Lukaku annað árið í röð eftir að hann stóð sig vel með West Bromwich Albion á síðasta ári. Lukaku hefur skorað átta mörk á tímabilinu, fleiri en framherja lína Chelsea sem inniheldur Fernando Torres, Samuel Eto'o og Demba Ba til samans.

Þegar Mourinho var gagnrýndur fyrir að lána Lukaku til Everton í stað þess að spila honum beindi hann spjótunum að Lukaku og sagði að fréttamenn ættu að spyrja hann afhverju hann væri á láni.

„Ég vildi bara fá að spila, fyrst ætlaði ég að vera áfram hjá Chelsea en ég ákvað að fara á láni til að spila meira og reyna að gera betur en á síðasta tímabili. Mourinho er að gera frábæra hluti og hann vildi hafa mig áfram en ég vildi fara á láni. Framtíð mín liggur hjá Chelsea og þar ætla ég mér að verða einn af bestu framherjum heimsins,“ sagði Lukaku.  






Fleiri fréttir

Sjá meira


×