Enski boltinn

Fyrrverandi leikmaður Liverpool látinn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Wayne Harrison.
Wayne Harrison. Nordicphotos/Getty
Wayne Harrison, fyrrverandi leikmaður enska úrvalsdeildarliðsins Liverpool, er látinn 46 ára að aldri eftir baráttu við krabbamein í brisi. BBC greinir frá þessu.

Harrison var lýst sem dýrasta táningi heimsins þegar Liverpool keypti hann frá Oldham á 250 þúsund pund árið 1985. Þá var Harrison 17 ára gamall og hafði farið illa með lið Liverpool í bikarleik unglingaliða félaganna.

Framherjinn lenti fljótlega í miklum meiðslavandræðum á Anfield. Ekki bætti úr skák að Harrison lenti í alvarlegu slysi þar sem hann féll ofan á gróðurhús og missti mikið blóð.

Hann var markahæsti leikmaður varaliðs Liverpool tímabilið 1989-89 með 17 mörk í 28 leikjum. Hann var á mörkum þess að detta inn í aðalliðið þegar meiðslin tóku sig upp. Fór svo að Harrison þurfti að leggja skóna á hilluna aðeins 25 ára. Meiðsli hans voru svo alvarleg að hann gat ekki einu sinni spilað í ágóðaleik sem Liverpool og Oldham stóðu fyrir árið 1992.

Að loknum ferlinum starfaði hann sem vörubílsstjóri. Hann lést á jóladag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×