Enski boltinn

Huddlestone fagnaði með klippingu | Úrslit dagsins

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Huddlestone bregður á leik í fagnaðarlátunum. Reikna má með honum stuttklipptum í næsta leik Hull.
Huddlestone bregður á leik í fagnaðarlátunum. Reikna má með honum stuttklipptum í næsta leik Hull. Mynd/Heimasíða FIFA
Hull tók Fulham í kennslustund á KC-vellinum í dag en meiri spenna var í viðureign Aston Villa og Swansea á Villa Park.

Heimamenn í Hull voru mun sterkari aðilinn gegn Fulham í dag en mörkin létu þó bíða eftir sér. Eftir markalausan fyrri hálfleik skoraði Ahmed Al-Muhamadi á 49. mínútu og flóðgáttirnar opnuðust í kjölfarið.

Robert Koren skoraði á 59. mínútu og þremur mínútum síðar var staðan orðin 3-0 eftir mark George Boyd. Afmælisbarnið Tom Huddlestone skoraði svo fjórða markið með skoti utan teigs á 66. mínútu.

Huddlestone fór á kostum á miðjunni hjá Hull og var besti maður vallarins á 27. ára afmælisdaginn. Huddlestone ætlaði ekki að klippa hár sitt fyrr en hann skoraði en markið var hans fyrsta síðan hann skoraði fyrir Tottenham gegn Arsenal í apríl 2011.

Veislunni á KC-vellinum þar þó ekki lokið. Matty Fryatt skoraði á 73. mínútu og Robert Koren sitt annað mark sex mínútum fyrir leikslok.

Hull er á góðu róli um miðja deild með 23 stig en Fulham er í 18. sæti með 16 stig.

Gabriel Agbonlahor skoraði sitt fyrsta mark á Villa Park í tæpt ár þegar Aston Villa komst yfir á heimavelli gegn Swansea eftir sjö mínútur. Fyrirliðinn fékk boltann einn gegn Gerhard Tremmel í markinu og kláraði færið vel.

Gestirnir frá Wales, sem enn spila án Michu sem er frá vegna meiðsla, jöfnuðu á 37. mínútu. Þá skallaði Roland Lamah boltann í netið á fjærstöng.

Swansea var mun meira með boltann í fyrri hálfleiknum en staðan jöfn 1-1 í hálfleik. Hvorugu liðinu tókst að bæta við marki í síðari hálfleik og því fengu liðin eitt stig hvort.

Swansea hefur 21 stig um miðja deild og Aston Villa hefur stigi minna tveimur sætum á eftir Swansea.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×