Enski boltinn

Cardiff grátlega nálægt sigri - Sunderland jafnaði í uppbótartíma

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jack Colback fagnar hér jöfnunarmarki sínu.
Jack Colback fagnar hér jöfnunarmarki sínu. Mynd/NordicPhotos/Getty
Aron Einar Gunnarsson og félagar í Cardiff City voru hársbreidd frá því að landa sigri á móti Sunderland í síðasta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni. Cardiff komst í 2-0 í leiknum en Sunderland skoraði tvö mörk á síðustu sjö mínútum leiksins.

Varamaðurinn Jack Colback skoraði jöfnunarmark Sunderland á fimmtu mínútu í uppbótartíma og aðeins nokkrum sekúndum síðar var leikurinn flautaður af. Colback hafði heppnina með sér því skotið fór af varnarmanni og í markið.

Cardiff var mun betra liðið í leiknum og spilaði frábærlega sérstaklega fyrsta hálftímann en tveir varamenn Sunderland áttu mikinn þátt í því að breyta leiknum.

Malky Mackay var rekinn sem knattspyrnustjóri Cardiff fyrir helgi en liðið var búið að tapa sannfærandi í síðustu leikjum sínum.

David Kerslake og Joe McBride stýrðu Cardiff-liðinu í leiknum og tóku þá ákvörðun að setja íslenska landsliðsfyrirliðann Aron Einar Gunnarsson á bekkinn. Aron Einar kom inn á 78. mínútu leiksins þegar Cardiff var 2-0 yfir.

Jordon Mutch skoraði fyrra mark Cardiff strax á 6. mínútu og lagði síðan seinna markið upp fyrir Fraizer Campbell á 58. mínútu en Fraizer Campbell hafði einmitt átt stoðsendinguna í fyrra markinu.

Varamaðurinn Steven Fletcher minnkaði muninn á 83. mínútu en David Marshall, markvörður Cardiff, varði oft vel í lokin og sá næstum því til þess að Cardiff landaði öllum þremur stigunum.

Cardiff City er í 16. sæti með átján stig, tveimur stigum á undan Fulham sem er í síðasta fallsætinu. Sunderland er á botni deildarinnar með fjórtán stig.

Jack Colback jafnar metin og tryggir Sunderland eitt stig.Mynd/NordicPhotos/Getty
Steven Fletcher minnkar muninn.Mynd/NordicPhotos/Getty
Fraizer Campbell kemur Cardiff í 2-0.Mynd/NordicPhotos/Getty
Jordon Mutch fagnar fyrsta marki leiksins.Mynd/NordicPhotos/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×