Enski boltinn

Engin jólagleði hjá Liverpool

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Samuel Eto'o fagnar marki sínu á Brúnni í dag.
Samuel Eto'o fagnar marki sínu á Brúnni í dag. Nordicphotos/Getty
Chelsea lagði Liverpool 2-1 á heimavelli sínum í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag í fjörugum leik. Öll mörkin voru skoruð í fyrri hálfleik. Liverpool féll úr efsta sæti niður í það fimmta um jólin.

Liverpool fékk sannkallaða óskabyrjun þegar Martin Skrtel kom liðinu yfir þegar hann fylgdi eftir skalla Luis Suarez á 3. mínútu leiksins.

Chelsea þekkir ekki þá tilfinningu að tapa á Stamford Bridge undir stjórn Jose Mourinho og blés liðið til sóknar eftir mark Liverpool.

Eden Hazard jafnaði metin með glæsilegu skoti á 17. mínútu og Samuel Eto‘o kom Chelsea yfir á 34. mínútu.

Þrátt fyrir að bæði lið fengu færi til að skora í seinni hálfleik og að Liverpool hafi reynt allt hvað liðið gat til að jafna metin var ekki skorað í seinni hálfleik og Chelsea fagnaði mikilvægum sigri í toppbaráttunni.

Liverpool var á toppnum á aðfangadag en ekkert stig í leikjunum tveimur yfir jólin þýðir að liðið er fimmta sæti þegar nýja árið gengur í garð. Chelsea er í þriðja sæti með fjórum stigum meira en Liverpool og tveimur stigum á eftir toppliði Arsenal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×